Skátastarf fyrir alla styrkt af Eflu
Starfshópur um skátastarf fyrir alla hlaut í dag 150.000 kr. styrk frá verkfræðistofunni Eflu til þess að hefja vinnu sína við að gera öllum kleyft að taka þátt í skátastarfi. Starfshópur um skátastarf fyrir alla var stofnaður fyrir ári síðan. Markmið hópsins er að koma með tillögur um úrbætur og frumkvæðisverkefni sem aukið geta þátttöku jaðarhópa í skátastarfi. Með jaðarhópum er átt við hvern þann hóp barna sem hefur að einhverjum ástæðum átt erfitt með að kynnast skátastarfi eða stunda það, svo sem fötluð börn, börn af erlendum bakgrunni, flóttabörn og hælisleitendur og börn sem búa við fátækt eða félagslega einangrun.
Markmið verkefnisins er að auka aðgengi jaðarhópa að skátastarfi, enda er æskulýðsstarf frábær vettvangur fyrir börn og ungmenni til að efla sjálfstraust, læra um samvinnu og hópastarf, efla með sér samfélagsvitund og náttúruást og finna hversu mikilvægt það er að tilheyra hópi.
Helga Þórey Júlíudóttir, formaður starfshóps um skátastarf fyrir alla og Inga Auðbjörg K. Straumland, verkefnastjóri hjá SSR, veittu styrknum móttöku í höfuðstöðvum Eflu. Skátarnir þakka Eflu fyrir styrkinn og hlakka til að takast á við verkefnið.