Skátar streyma að

Landsmót skáta er að hefjast og skátar allstaðar að úr heiminum hafa streymt á svæðið frá því á mánudag. Öll íslensku skátafélögin og fleiri erlendir skátar setja upp tjaldbúðir sínar á svæðinu í dag. Eftirvæntingin leynir sér ekki á mótsvæðinu á Úlfljótsvatni, enda hafa liðið átta ár frá síðasta Landsmóti skáta.

Mikil gleði ríkir á svæðinu þrátt fyrir hressilega rigningu og fagna skátarnir því að geta prófað allan búnaðinn sinn á mótinu. Samkvæmt veðurspá styttir upp skömmu eftir helgi.

Á mótið koma um 2000 skátar, t.d. frá Kanada, Hong Kong, Tavían, Evrópu og Bandaríkjunum.

 

„Það er erfitt að útskýra fyrir þeim sem hafa ekki mætt á Landsmót hvað það er, því þetta er meira en bara útilega. Skátaandinn sem svífur yfir svæðið og samheldnin sem er til staðar í skátasamfélaginu okkar er einstök og býr til þessa fallegu stemmningu sem einkennir Landsmót“.
– Kolbrún Ósk Pétursdóttir, mótsstýra Landsmóts skáta

 

Mótið verður sett í kvöld kl 20:00 með glæsilegri setningarathöfn.

Það er spennandi og skemmtileg vika framundan þar sem við hittum skáta allsstaðar að úr heiminum og byggjum upp stórt alþjóðlegt skátasamfélag. Fimmtudaginn 18. júlí bjóðum við öllum áhugasömum að koma í heimsókn. Hægt verður að rölta um allt svæðið og kynnast ólíkum menningarheimum skáta frá mismunandi löndum. Deginum lýkur með hátíðarkvöldvöku. Við hvetjum öll til þess að taka daginn frá og gleðjast með okkur á Úlfljótsvatni.

Hægt verður að fylgjast með Landsmótinu á heimasíðu og samfélagsmiðlum skátanna, Facebook og Instagram. Gefið verður út daglegt fréttablað frá Landsmóti og að auki hægt að fylgjast með því í útvarpi á rásinni 106.1 eða á spilarinn.is