Inngilding og sjálfbærni í brennidepli á Skátaþingi
Um 150 skátar tóku þátt eða stóðu að Skátaþingi sem haldið var á Sólheimum og Úlfljótsvatni helgina 5.-7. apríl. Skátaþing er árleg samkoma þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi.
Gaman er að fylgjast með þróun í þátttöku ungmenna á Skátaþingi en í ár var slegið met í virkri þátttöku þeirra, en fyrra met var sett á Skátaþingi í fyrra. Í ár voru 36 af 55 fulltrúum þingsins með atkvæðisrét á aldrinum 13-25 ára og því rúmlega 65% atkvæða í höndum ungmenna. Við fögnum því og erum stolt af því að vera ungmennahreyfing sem stýrt er af ungu fólki með stuðningi fullorðinna.
Inngilding og sjálfbærni voru í brennidepli á Skátaþingi að þessu sinni og var því tilvalið að halda þingið á Sólheimum. Starfsemi Sólheima og skátastarf byggja einmitt bæði á hugsjónastarfsemi og miða að því að bæta þann heim sem við búum í. Þema þingsins að þessu sinni var Leiðtogar í 100 ár í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Bandalag íslenskra skáta var stofnað.
Í upphafi voru flutt ávörp frá gestum þingsins en Ása Valdísar Árnadóttur Oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps flutti opnunarávarp þingsins. Þar fjallaði hún um sveitarfélagið og sagði frá reynslu sinni af því að hitta þátttakendur á Gilwell leiðtogaþjálfuninni þegar þau komu í heimsókn á bæinn sem hún ólst upp á. Ólafur Hauksson og Valgeir F. Backman fluttu ávarp fyrir hönd skátafélagsins Sólheima þar sem þeir buðu skátana velkomna og minntust á að almennt svifi skátaandinn yfir Sólheimum og íbúum þar. Að lokum fór Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta, yfir starfsemi þeirra og hvernig hún styður við skátastarf í landinu ásamt því að gefa þátttakendum þingsins gjöf frá fyrirtækinu.
Einnig voru kynningar á þinginu en þar byrjaði Huldar Hlynsson, meðstjórnandi í stjórn BÍS, á því að fara yfir stöðuna í Stefnu BÍS og hvernig hægt sé að vinna að því að markmiðum hennar sé náð fyrir lok árs 2025. Helga Þórey Júlíudóttir, sveitaforingi og skátaforingi skátastarfs í Guluhlíð, og Margrét Rannveig Halldórsdóttir, forstöðukona Guluhlíðar sögðu frá Skátastarfi fyrir öll í Guluhlíð en síðastliðið ár hefur verið unnið að því að auka tækifæri fyrir öll börn að stunda skátastarf, óháð færni og getu. Loks kom Rebecca Craske, sérfræðingur bresku skátahreyfingarinnar í sjálfbærni málefnum og talaði um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í samfélaginu okkar í dag og þau tækifæri sem standa okkur til boða til að gera lifnaðarhætti okkar sjálfbærari.
Á Skátaþingi tíðkast að veita öflugum skátum þakkir fyrir vel unnin störf. Að þessu sinni ber helst að nefna að fararstjórn, sveitarforingjar og sjálfboðaliðar sem fóru á Alheimsmót skáta fengu öll heiðursmerki fyrir að hafa staðið sig vel í erfiðum aðstæðum í Suður-Kóreu.
Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk var boðið upp á smiðjur þar sem þátttakendur gátu kynnt sér betur starfsemi Sólheima, sjálfbærni næstu 100 árin, könnuðamerki BÍS, leiðir til að minnka skjánotkun, leiðtogaþjálfunarleik og hvernig við aukum alþjóðastarf í skátunum.
Á sunnudag var haldið á Úlfljótsvatn þar sem boðið var upp á dagskrá til að undirbúa Landsmót skáta sem haldið verður í sumar. Þar voru lögð drög að mótsbókinni, rekka- og róverdagskráin var skoðuð og opið var í Skátasafnið. Loks var svo boðið upp á karnival þar sem félögin sýndu frá því sem hefur gefist vel í þeirra tjaldbúðum á Landsmótum.
Við þökkum öllum þátttakendum fyrir skemmtilega og gagnlega helgi á Skátaþingi og hlökkum til þess næsta!