Nýr framkvæmdastjóri Grænna skáta
Jón Ingvar Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grænna skáta. Jón Ingvar tekur við af Kristni Ólafssyni sem óskaði eftir starfslokum þar sem hann tekur sér nýtt starf fyrir hendur á sumarmánuðum. Nýr framkvæmdastjóri mun byrja með vorinu eftir nánara samkomulagi. Grænir skátar þakka Kristni kærlega fyrir vel unnin störf í uppbyggingu félagsins undanfarin ár.
Stjórn Grænna skáta hóf ráðningarferli á nýjum framkvæmdastjóra í byrjun janúar og var starfið auglýst í aldreifingu prentmiðla, á vefsíðu, Alfreð og samskiptamiðlum sem skátahreyfingin notar. Viðtöl við umsækjendur fóru fram í febrúar.
Jón Ingvar er viðskiptafræðingur og hefur verið skáti frá unga aldri. Síðastliðin þrjú ár starfaði hann sem rekstrarstjóri Heimaleigu sem er með um 400 íbúðir í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Jón Ingvar hefur unnið í fjölbreyttum störfum innan skátahreyfingarinnar lengst af sem viðburðastjóri, var framkvæmdastjóri World Scout Moot 2017 sem haldið var á Íslandi.
Um Græna skáta
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi. Fjölmörg skátafélög nýta jafnframt Græna skáta til fjáröflunar.