Öflugir skátar hefja Gilwell vegferðina
Nýlega héldu 14 öflugir skátar af stað í Gilwell vegferðina en þau luku fyrsta þrepi af þremur helgina 2-4. febrúar og bera núna stolt Gilwell hnútinn eftirsótta.
Á námskeiðið mættu skátar víðsvegar að, frá Búðardal, Reykjavík, Mosfellsdal og Kópavogi, sum ný á Gilwell vegferðinni en önnur eru að koma aftur til að klára.
Hópurinn lét ekki ófærð og vont veður á sig fá og hóf námskeiðið í Mosverjaheimilinu þar sem farið var yfir helstu leiðtogastíla og hvernig leiðtogar við viljum vera, bæði í skátastarfi sem og í eigin lífi.
Á laugardeginum lá leiðin austur á Úlfljótsvatn og hófst þar með námskeiðið og flokkarnir litu dagsins ljós. Dagskráin hófst með stórskemmtilegum póstaleik þar sem skátaaðferðin var í fyrirrúmi. Dagskrá laugardagsins miðaði svo að gildum í skátastarfi og leiðtogaþjálfun.
Hefðbundin Gilwell kvöldvaka var á sínum stað, þátttakendur slógu í gegn með frumsömdum skemmtiatriðum þar sem persónur úr Njálu skelltu sér á Gilwell! Kvöldinu lauk svo í Ólafsbúð þar sem við ornuðum okkur við eldinn og grilluðum smors og pylsur.
Á sunnudag var rýnt í leiðtogalilju WOSM sem stefnumótunar og verkefnastjórnunartæki. Nú tekur við spennandi tími þar sem Gilwell nemarnir fara að skapa verkefnin sín og var því sunnudagurinn nýttur undir hugarflug og rýni á það hvernig hægt sé að bæta skátastarf á Íslandi.
Þátttakendahópurinn var einstaklega samstilltur og til í allar þrautir og verkefni sem leiðbeinendum datt í hug að leggja fyrir þau. Það gerði helgina sérlega skemmtilega fyrir okkur öll. Yndislegi Gilwell skálinn heldur vel utan um hópinn þar sem sagan og táknræna umgjörðin eru í aðalhlutverki og koma okkur í Gilwell stemminguna.
Næsta þrep verður í júní þar sem við munum búa í tjaldbúð og reynir þá meira á hópastarf og samvinnu.