Skátar á skátamóti í vetrarhríð
Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í áttunda sinn um helgina í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni. 140 skátar sóttu mótið að þessu sinni.
Markmið með mótinu var fyrst og fremst að kenna ungum skátum á að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Þau verkefni sem skátarnir þurftu að takast á við um helgina voru sig og klifur í 8 metra háum turni, elda mat á prímus, búa til kyndil og að auki hefðbundin skátadagskrá eins og póstaleikir, gönguferðir kvöldvaka og risa næturleikur.
Tjöld sett upp í milli stórhríða
Eitt mest krefjandi verkefni Vetrarmótsins var að setja upp tjaldbúðir fyrir elstu skátanna. Um það bil 20 skátar gistu í tjöldum í tvær nætur. Veðrið var bæði mjög slæmt og en einnig komu kaflar þar sem var heiðskírt og logn. Skátarnir skemmtu sér konunglega þótt veðrið hafi barið hressilega á þeim en það verður eflaust það sem mun standa upp úr þegar litið er til baka að hafa tekist á við svona krefjandi aðstæður.
Rosaleg útivera og mikilvæg næring
Um helgina voru krakkarnir um það bil 15 tíma úti í snjónum í leik og starfi sem er vel rúmlega það sem börn eru vön nú til dags í og eiga skátarnir mikið hrós skilið að hafa tekist á verkefnin með bros á vör. Það skiptir miklu máli að vera vel nærður og við erum mjög heppinn að eiga góða að til þess að elda góðar og næringarríkar máltíðir á mótinu. Þá gefst tækifæri til þess að fylla á orkubirgðir og fá smá yl í kroppinn til þess að halda áfram útiverunni.