Niðurstöður frá aðalfundi Æskulýðsvettvangsins
Tvær ákvarðanir voru teknar á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins þann 1. júní sem mikilvægt er að upplýsa forystu skátahreyfingarinnar um.
Breytingar á siðarreglum
Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.
Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.
Eins og forysta skátahreyfingarinnar kann að muna eftir voru siðareglurnar uppfærðar árið 2022 en þær breytingar byggðu á tillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins, og voru í framhaldi unnar áfram af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins og loks samþykktar í stjórn ÆV. Hægt er að sjá frétt um þær breytingar frá síðasta ári hér.
Eftir að þessar tillögur höfðu verið unnar í samvinnu allra samtakanna á Æskulýðsvettvanginum og samþykktar á öllum skipulagsstigum þess lagðist stjórn UMFÍ hins vegar gegn einni breytingunni og taldi þessar breytingar hafa verið gerðar án samþykkis samtakanna, þótt að fulltrúar UMFÍ hefðu setið aðalfundinn í húsakynnum UMFÍ, starfsmaður UMFÍ sitji í ráðgjafahópnum og framkvæmdastýra UMFÍ sitji í stjórn ÆV en eins og áður hefur verið sagt voru þessar tillögur unnar og samþykktar á öllum þessum stigum. Á aðalfundi 2023 lagði stjórn ÆV fram þá tillögu að fella síðustu setninguna út úr eftirfarandi ákvæði til að skapa sátt innan allra samtaka um siðareglurnar:
17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.
Fulltrúi skátanna á fundinum mældi gegn tillögunni og minnti á að auk alls samráðsins og að fulltrúar UMFÍ hefðu samþykkt tillöguna á öllum vettvöngum sem hún var borin upp þá væri þetta ákvæði heldur ekki úr lausu lofti gripið. Það byggði á tillögu sem innfluttur sérfræðingur Håvard Øvegård kynnti sem gagnlegt verkfæri til að bregðast við tælingu og kynferðislegu ofbeldi á grundvelli valdamisræmis á ráðstefnu sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að samhliða Reykjavíkurleikunum 2019 undir yfirskriftinni „Eru íþróttir leikvangur ofbeldis“. Upptöku frá kynningu hans má horfa á hér en hann talar um sambærilegt ákvæði á 19. mínútu og 40. sekúndu í myndbandinu. Þá væri líka furðulegt að UMFÍ legðist gegn ákvæðinu þegar mörg aðildarfélög þeirra í Reykjavík tilheyra einnig Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem lét ekki kyrrt við sitja að flytja Håvard Øvegård inn á ráðstefnu heldur fór að tillögum hans og inleiddi álíka ákvæði í í sérstakar siðareglur um kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem má finna hér.
Aðalfundur ÆV samþykkti engu að síður að fella út ákvæðið en 2 af 3 fulltrúum skátanna kusu gegn því en 1 fulltrúi landsbjargar og 1 fulltrúi KFUM/K sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Ákvæðið er því nú svohljóðandi:
17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart.
Staðfesting viðbragðsáætlunar samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs
Ný viðbragðsáætlun var gefin út í nóvember 2022 en grunnurinn að henni byggir á fyrri viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins en fulltrúar ráðgjafahópsins sátu í vinnuhóp um nýja viðbragðsáætlun auk samskiptaráðgjafa, starfsfólki Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþróttasambandi Íslands.
Þrátt fyrir vilayfirlýsingu í verki og þrátt fyrir að lógó samtaknna væru á viðbragðsáætluninni þótti skátunum mikilvægt að aðalfundur staðfesti formlega að öll félög Æskulýðsvettvangsins störfuðu eftir viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa. Var tillagan samþykkt samhljóða.
Siðareglur og viðbragðsáætlun áfram á sínum stað
Eftir sem áður eru siðareglur í gildandi útgáfu og viðbragðsáætlunin alltaf að finna á sérstöku vefsvæði um Æskulýðsvettvanginn.