Yfir 100 drekaskátar komu saman á drekaskátadegi Svana
Drekaskátadagurinn 2023 var haldinn á laugardaginn seinast liðinn þann 4. mars. Dagurinn var haldinn af Skátafélaginu Svönum og fór dagskráin fram á Álftanesi í stórumhverfinu í kringum skátaheimili þeirra á Bjarnastöðum. Dagurinn gekk frábærlega fyrir sig, og fengu drekarnir ljómandi gott veður, þó það hafi verið örlítið kal, skein sólinn allan daginn og gerði leiki og dagskrá skemmtilega og létta.
Táknræn umgjörð dagsins var „Sjóræningjar og geimverur“ þar sem skátarnir tóku hlutverk sjóræningja sem voru að endurheimta kex og kakó sem geimverurnar höfðu stolið af þeim. Skátarnir gengu á milli pósta sem voru að finna dreift um stóran hluta Álftanes. Á hverjum póst tókust skátarnir á áskorunum geimveranna, í formi leikja og verkefna.
Að lokum, þegar drekarnir náðu að sigra geimverurnar, settust skátarnir niður við Bjarnastaði, skátaheimili Svana, og drukku kakó og kjömsuðu á kexi.
Drekaskátar í leik, mynd eftir Guðna Gíslason, Hraunbúa„Það var einstaklega skemmtilegt að sjá fjörið í krökkunum og foringjum“ segir Halldór Valberg, félagsforingi Svana. „Við vorum heppin með veður, sólin lék við okkur. Þegar við héldum fálkaskátadaginn fyrir nokkrum árum var svo mikið rok að við vorum hrædd um að krakkar gætu farið að fjúka, en núna fengum við þetta dásamlega veður og nýttum það vel.“
Foringjar og sjálfboðaliðar Svana þakka kærlega frábæra þátttöku og einstaklega góðan anda í þátttakendum og foringjum.