Drekaskátadagurinn 2022
Drekaskátadagurinn 2022 fór fram sunnudaginn 6.mars þar sem fjöldi drekaskáta kom saman á heimasvæði Skjöldunga í Laugardalnum. Kátir skátar fylltu dalinn og á víð og dreif mátti sjá unga skáta leysa verkefni, þar sem þeir tóku þátt í skemmtilegri og fjölbreyttri dagskrá. Dagurinn einkenndist af frábæru veðri, sólin skein og logn var í lofti, á meðan drekarnir þutu um allan Laugardalinn í ævintýralegum póstaleik með goðsöguþema. Skátarnir þurftu að leysa ýmiss verkefni og þrautir með samvinnu, hjálpsemi og útsjónarsemi að leiðarljósi ásamt því að fá tækifæri til að kynnast hvort öðru betur þvert á skátafélögin. Þegar drekaskátum tókst að leysa öll verkefnin þá sameinuðust þau í skátasöng og gleði ásamt því að ylja sér með heitu kakói og kexi.
,,Að sjá loksins fullt af skátum samankominn til að taka þátt í að gera skemmtilega hluti utandyra stendur upp úr eftir daginn. Við vorum um 70-80 skátar að leika okkur úti saman, eitthvað sem við höfum ekki getað gert síðustu tvö ár og að sjá skína í þessa gleði hjá krökkunum þegar þau gera eitthvað nýtt og spennandi er í grunninn það sem skátastarf snýst um“
segir Aron Gauti Sigurðarson, skátaforingi hjá Skjöldungum og einn skipuleggjenda drekaskátadagsins.