The Academy 2020
Rafrænn viðburður fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk skátabandalaga í Evrópu
Nú á dögunum fór fram Academy en það er árlegur viðburður haldinn sameiginlega af WOSM og WAGGGS fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk skátabandalaga í Evrópu. Viðburðurinn fer vanalega fram í einhverri borg í Evrópu og koma þar saman fjöldinn allur af skátum frá löndum Evrópu til að sækja sér fjölbreytta fræðslu og þjálfun og til að kynnast öðrum skátum. Í ár fór viðburðurinn þó fram með öðrum hætti en vanalega þar sem hann var haldinn í fyrsta skiptið á netinu.
Sankað að sér nýrri þekkingu
Þema Acadamey í ár var „Vöxtur“ (e. Growth), „Áhrif“ (e. Impact & Influence) og „Fjölbreyttir meðlimir og Inngildandi tækifæri“ (e. Diverse members & Inclusive Opportunities). Fjölbreyttar smiðjur voru í boði og gat fólkið valið sér það sem það vildi leggja áherslu á og sankað að sér nýrri þekkingu.
Íslendingar fjölmenntu á viðburðinn
Átta Íslendingar tóku þátt í viðburðinum, fimm sem þátttakendur, einn jafningjafræðari (e. peer group mentor) og tveir sem stjórnuðu smiðjum (e. facilitators). Auk þess var sýnt frá Kandersteg, sem er skátamiðstöð í Sviss, og þar áttum við Ísland líka fulltrúa sem tók þátt í að kveikja varðeld. Mjög skemmtilegt!
150 manns sungu saman Ging Gang Gullí Gullí á Zoom
Viðburðurinn gekk mjög vel og hélt hann sömu dagskrá og ef viðburðurinn hefði ekki verið haldinn á netinu. Sem dæmi var opnunarhátíðin á sínum stað þar sem 150 manns fjölmenntu á zoom fund og sungu saman. Alþjóðlega kvöldið stóð fyrir sínu þar sem löndum var skipt niður í herbergi í Zoom og gátu kynnt sín lönd; sumir elduðu þjóðarréttinn sinn, aðrir sungu saman og sumir kenndu hvort öðru dans! Íslenski hópurinn sýndi sýnar bestu hliðar og skellti í einn Daðadans, enn ekki hvað!
Ferðalagið heldur áfram
Academy lauk í ár á fallegu lokakvöldi þar sem við fórum yfir ferðalagið á Academy. Viðburðarteymið setti saman skemmtilegt myndband með svipmyndum viðburðarins (og mátti þar sjá glitta í Daðadansinn okkar Íslendinga, enn ekki hvað!) og var gaman að sjá hvað við gerðum mikið á þessum stutta tíma saman! Academy verður haldið í Þýskalandi á næsta ári og mælir hópurinn sem sótti það núna að allir sæki um að fara þangað!
Ferðalagið var stutt heim eftir þennan viðburð en bakpokinn þungur. Margar nýjar minningar, fjölbreyttur fróðleikur og nýir vinir er það sem við tökum með okkur heim í ár.
Takk fyrir okkur!