160 drekaskátar dönsuðu diskó á Úlfljótsvatni
Diskódrekar fylktu liði á Úlfljótsvatn um helgina þegar 160 drekaskátar á aldrinum 8-10 ára reistu tjaldbúð, dönsuðu diskó og skemmtu sér að skáta sið.
Ný mótsstjórn lék listir sínar í fyrsta sinn, með stuðningi 25 starfsmanna mótsins á aldrinum 16-28 ára.
Veðrið lék við hópinn á föstudaginn og var því auðvelt að tjalda og koma sér fyrir. Um 260 skátar tóku þátt í mótinu í heild sinni auk þess voru fjölskyldur drekanna sjáanlegar á tjaldsvæðinu. Laugardagurinn gekk vel, dagskrá fór fram víðsvegar um Úlfljótsvatn, á vatnasvæðinu við KSÚ, í klifurturni og bogfimi auk þess sem mótið gróðursetti skjólbelti við stallaflatirnar undir handleiðslu Skógræktarfélags Íslands. Drekagleðin skein úr andlitum skátanna við heimför á sunnudag og voru öll sammála um að mótið hefði verið afskaplega vel heppnað og hlakka til að koma aftur að ári.