
Við í Ungmennaráð BÍS ætlum að halda helgar viðburð fyrstu helgina í september, 5.-7. september, í Esjuhlíðum. Markmið helgarinnar er að gróðursetja tré og runna, grisja og taka almennt til hendinni við að fegra og viðhalda náttúrunni í Esjuhlíðum.
Ungmennaráð mun starfa í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem mun aðstoða við fræðslu á réttum handtökum þegar það kemur að grisjun og gróðursetningu, einnig fáum við að gista hjá Land og skógum sem eru með útivistarparadís í Mógilsá í Esjuhlíðum. Þar verður hægt að tjalda inn í skógi ásamt því að þau sem eiga hengirúm eru hvött að taka þau með og sofa í þeim.
Svæðið í Esjuhlíðinni er algjör náttúruperla og fá þátttakendur tækifæri á að skoða umhverfið og njóta útivistar ásamt því að taka þátt í skemmtilegri dagskrá frá ungmennaráði.
Þetta verkefni fékk styrk frá Loftslagssjóði ungs fólks í Reykjavík (Youth Climate Action Fund) sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies og er þar með frítt fyrir alla þátttakendur. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en það er von ungmennaráðs að þetta verkefni muni auka áhuga á gróðursetningu og loftslagsmálum. Til viðbótar mun ungmennaráð í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur vera virk á samfélagsmiðlum og gera kynningar-og fræðslumyndbönd um útivist, náttúru, gróðursetningar og loftslagsmál svo við hvetjum þau sem hafa áhuga á að vera með okkur í þessu verkefni að skrá sig á viðburðinn.
Mógilsá, Esjuhlíð, landssvæði Lands og Skógar og fyrsta helgin í september, 5.-7. september.
Viðburðurinn er fyrir öll á aldrinum 13.-18. ára, Fyrir skáta, þau sem eru áhugasöm um skátastarf, þau sem eru áhugasöm um útivist og þau sem eru áhugasöm um loftslagsmál og gróðursetningu (opið fyrir öll ekki einungis skáta).
Frítt fyrir öll sem vilja taka þátt
Þátttakendur þurfa að vera undirbúin fyrir útivist alla helgina, vel klædd eftir veðri, tilbúin til að taka til hendinni í líkamlegri vinnu, að mögulega skítast smá út, gista í hengirúmi eða tjaldi, hafa gaman og taka þátt eftir eigin getu. Ítarlegri útbúnaðarlisti kemur þegar nær dregur.
Skráning opnar á skraning.skatarnir.is 1. júlí og lýkur 29. ágúst.