Útkall – Fulltrúi rekka-og róverskáta í mótsstjórn Náttúrulega
Um verkefnið:
Skátaþing í apríl 2024 samþykkti að sumarið 2025 yrðu haldin landsmót fyrir hvert aldursbil á þátttakanda aldri að fyrirmynd þeirra móta sem haldin voru 2018 og 2022.
Rekka- og Róvermótið verður því líkt og síðast haldið í tveimur hlutum, þar sem fyrri hlutinn er göngumót sem varir í 3-4 daga (2-3 gistinætur) og síðari hlutinn er tjaldbúðarmót sem varir 3-4 daga (3-4 gistinætur). Þátttakendur geta síðan valið að taka þátt í öðrum eða báðum hlutum mótsins. Mótið verðu haldið 14.-20. júlí en staðsetningin kemur síðar.
Mótstjórn leitar að rekka-og róverskátum í mótstjórn
Við leitum að skátum á rekka- og róverskáta aldrinum sem finnst gaman að takast á við stór og spennandi verkefni með brennandi áhuga á útivist og að búa til skemmtilega dagskrá. Við teljum mikilvægt að fá raddir þátttakenda í mótstjórnina í að móta viðburðinn. Að sitja í mótstjórn sem fulltrúi rekka-og róverskáta er kjörið tækifæri til að öðlast reynslu og þekkingu að skipulagi, undirbúningi og framkvæmd stórra verkefns og því hvetjum við þau sem vilja stíga sín fyrstu skref í viðburðahaldi að sækja um.
Hlutverk mótstjórnar:
- Mótstjórn ákveður staðsetningu mótsins út frá gönguleið sem nær a.m.k. 40 km og endar þar sem mögulegt er að halda tjaldbúðarmót
- Mótsstjórn skiptir með sér hlutverkum í mótsstjórn til að tryggja ábyrgðaraðila yfir öllum verkþáttum mótsins.
- Mótstjórn miðlar upplýsingum svo að þátttakendur geti sem best undirbúið sig fyrir gönguna og tryggir að nægur fjöldi ábyrgðaraðila fylgi þátttakendum í göngunni. Mótstjórn stýrir öryggismálum, sjúkramálum, flutningsmálum og annast samskipti við tjaldsvæði á leiðinni. Þau reyna að tryggja velferð allra á meðan á göngu stendur í samstarfi við þá fararstjóra sem fylgja frá félögunum. Mótstjórn skipuleggur dagskrá sem er ögrandi og spennandi fyrir þátttakendur og byggir á frumkvæði og sjálfstæði þeirra ásamt því að skipuleggja samfélagsverkefni á öðrum eða báðum hlutum mótsins þannig að sem flestir þátttakendur fái tækifæri á að hafa góð áhrif í nærumhverfi mótsins.
- Mótsstjórn þarf einnig að taka afstöðu varðandi flutning á þátttakendum og búnaðs fyrir báða hluta mótsins og einnig varðandi matarmál yfir báða hluta mótsins.
- Mótstjórn vinnur fjárhagsáætlun með fjármálastjóra BÍS og ábyrgist frágang, endurmat og uppgjör í samvinnu við Skátamiðstöð.
Hvernig sæki ég um:
Ef þig langar að sækja um getur þú sótt um strax í dag með því að fylla út umsóknina. Umsóknarfrestur er til og með 23. október 2024