Skátasumarið 2023 – Mótstjórn
Um verkefnið:
Úlfljótsvatn og Bandalag íslenskra skáta leitar eftir mótstjórn fyrir Skátasumarið 12.-16. júlí 2023. Skátasumarið er viðburður sem haldinn er í samstarfi Úlfljótsvatns og BÍS svo að skátafélög geti nýtt sér að sækja metnaðarfullt og skemmtilegt sumarmót í undralandinu til að loka starfsári sínu með stæl. Skátasumarið var haldið þrisvar sinnum sumarið 2021 og var öll vinna mótstjórnanna þá skjalfest svo hún gæti nýst til að halda viðburðinn aftur.
Hlutverk mótsstjórnar:
Hlutverk mótstjórnar er að vera í forystu fyrir mótinu, fara yfir skipulag síðustu mótaraðar með endurmatið í huga og reyna að finna leiðir til að gera mótið enn betra í þeim tilgangi að áfram verði hægt að bjóða upp á mótið með reglulegu millibili. Að skipuleggja og tryggja framkvæmd á frumlegri og fjölbreyttri dagskrá. Mótstjórn aflar þeirra sjálfboðaliða sem er þarfnast fyrir framkvæmd mótsins m.t.t. starfsafls Úlfljótsvatns við mótið.
Hlutverk mótstjóra:
Mótsstjóri er formaður mótsstjórnar og ber ábyrgð gagnvart Úlfljótsvatni að undirbúningur, framkvæmd og endurmat mótsins sé í samræmi við áætlanir. Mótsstjóri stýrir verkskiptingu innan mótstjórnar, heldur utan um áætlanir og eftirfylgni með þeim. Mótsstjóri ákveður dagskrá mótsstjórnarfunda ásamt því að boða þá og stýra þeim, haldin skal fundargerð fyrir alla fundi mótsstjórnar. Mótsstjóri sér til þess að á milli funda hafi allir aðilar í mótsstjórn verkefni sem þau vinna að á milli funda og heldur öllum við efnið. Mótsstjóri er tengiliður við stjórn BÍS og upplýsir hana um gang mála þegar þess er óskað. Mótsstjóri ábyrgist að allar fundargerðir og að öll vinna sem er skjöluð sé vistuð miðlægt hjá Úlfljótsvatni.
Tímarammi verkefnisins:
Mótsstjórn hefur störf í desember 2022 og fundar minnst mánaðarlega fram að móti og oftar þegar nær dregur móti, að móti loknu stýrir mótsstjórn endurmati meðal fararstjóra og starfsfólks. Hún lýkur síðan störfum í september 2023 með því að skila skýrslu og endurmati til stjórnar BÍS um mótið.
Stuðningur við mótstjórn:
Mótstjórn vinnur náið með Úlfljótsvatni og mótar með þeim hvaða verkþættir eru á höndum staðarins og hverjir á höndum mótstjórnar. Mótstjórn fær aðgang að gögnum frá síðustu mótarröð ásamt góðri kynningu á þeim svo hún geti sem best byrjað að vinna með þau. Í upphafi fær mótstjórn þjálfun í fundarsköpun ásamt hópefli. Allir aðilar mótstjórnar fá flíspeysu.
Markmið:
- Að minnst 200 þátttakendur taki þátt í Skátasumrinu 2023.
- Að minnst helmingur dagskrár sé nýjung.
- Að ánægja sjálfboðaliða sem koma að viðburðinum sé mikil í lok viðburðar.