Útkall – Mótsstjórn Fálkaskátamóts 2025
Um verkefnið:
Skátaþing í apríl 2024 samþykkti að sumarið 2025 yrðu haldin landsmót fyrir hvert aldursbil á þátttakanda aldri að fyrirmynd þeirra móta sem haldin voru 2018 og 2022.
Fálkaskátamótið er 4 daga (3 gistinótta) tjaldbúðarmót sem verður fyrri hluta sumars. Staðsetning hefur ekki verið fest en það verður eitt af fyrstu verkefnum mótsstjórnar að ákveða staðsetningu og dagsetningu mótsins.
Mótsstjórn verður í góðu samstarfi við BÍS og Skátamiðstöð!
Hverjum leitum við að í mótsstjórn:
Við leitum að skátum sem finnst skemmtilegt að veita ungu fólki tækifæri að læra og vaxa í tjaldbúð. Hefur gaman af því að búa til metnaðarfulla stórleiki og gagnvirka dagskrá. Einnig vantar sérstaklega einstakling til að stýra miðlun fyrir mót og frá mótinu sjálfu.
Hlutverk mótsstjórnar:
- Fyrsta hlutverk mótstjórnar er að staðfesta nákvæma tímasetningu og staðsetningu á Fálkaskátamótinu í samvinnu við Skátamiðstöð.
- Mótsstjórn skiptir með sér hlutverkum til að tryggja ábyrgðaraðila yfir öllum verkþáttum mótsins og auglýsir eftir og fær til starfa sjálfboðaliða fyrir mótið eins og þörf er metin á.
- Mótstjórn vinnur fjárhagsáætlun með fjármálastjóra BÍS og ábyrgist frágang, endurmat og uppgjör í samvinnu við Skátamiðstöðina.
- Mótstjórn skipuleggur tjaldbúð, matarmál og dagskrámál og passar að auki að skipuleggja dagskrá sem er ævintýraleg, skemmtileg, krefjandi og aðgengileg fyrir þátttakendur og byggir á frumkvæði og sjálfstæði þeirra. Mótsstjórn skipuleggur einnig samfélagsverkefni í samstarfi við mótssvæðið sem allir þátttakendur taka þátt í á mótinu.
- Mótstjórn ábyrgist upplýsingar og kynningarmál í aðdraganda móts í samstarfi við Skátamiðstöð svo að þátttakendur geti undirbúið sig sem best fyrir mótið og æskilegt væri ef hægt er að vefja undirbúninginn eitthvað saman við vetrarstarfið í þeim félögum sem stefna á mótið.
Hvernig sæki ég um?
Ef þú hefur áhuga á að vera í mótsstjórn Fálkaskátamóts getur þú sótt um strax með að fylla út umsóknina. Umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst 2024