Stofnun nýs skátafélags
HANDBÓK
EFNISYFIRLIT
1. HVATNING
Takk fyrir að sýna því áhuga að stofna nýtt skátafélag!
Skátastarf stuðlar að vexti og þroska barna og ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávallt reiðubúin að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu.
Það er mikil forvörn falin í því að stunda æskulýðsstarf á borð við skátastarfið og viljum við að flest börn og ungmenni á Íslandi fái tækifæri á því að stunda skátastarf í sínu nærumhverfi. Til þess þurfum við áhugasama einstaklinga til þess að sinna starfinu og gefa börnum tækifæri til að upplifa ævintýrið sem skátastarf er.
Við þökkum þér fyrir að taka fyrstu skrefin að stofnun nýs félags. Mundu að Skátamiðstöðin er þér til halds og trausts í öllu ferlinu!

2. HEFJUMST HANDA
2.1 Stuðningur BÍS
Fyrsta skrefið í ferlinu að stofnun nýs skátafélags er að hafa samband við Skátamiðstöðina sem hýsir skrifstofu Bandalags íslenskra skáta (BÍS). Skátamiðstöðin er þjónustumiðstöð fyrir skátafélögin í landinu og er málsvari skátanna, bæði innanlands og utan. Skátamiðstöðin veitir stuðning og ráðgjöf í gegnum allt ferlið eftir óskum og þörfum.
Erindrekar skátanna verða tengiliður félagsins við Skátamiðstöðina og stjórn BÍS. Hefst ferlið á því að erindreki fundar með tengiliðum nýs skátafélags og fer yfir næstu skref. Fyrir fundinn kannar erindreki sögu skátastarfs á staðnum og hvort stofna þurfi nýtt félag eða endurvekja eldra félag úr dvala.
2.2 Mismunandi aðildir að BÍS
Skátafélög og skátahópar geta haft ólíkar félagsaðild að BÍS og fer það eftir því hver áhersla hópsins er hvaða aðild hann hlýtur. Í 2. grein laga BÍS um félagsaðild er greint nánar frá aðildum að BÍS og þeim réttindum og skyldum sem fylgja hverri aðild. Hefðbundin skátafélög sem bjóða upp á starf fyrir skáta á þátttökualdri eru að jafnaði með A aðild.
3. MANNAUÐUR
3.1 Stjórn og foringjar
Forsenda þess að hægt sé að stofna skátafélag er að til staðar sé áhugasamir sjálfboðaliðar til að sinna starfinu. Mikilvægt er að hlúa vel að þeim einstaklingum sem gefa tíma sinn og orku í starfið og tryggja að skátastarfið veiti þeim einnig vettvang til sjálseflingar og skemmtunar. Mannauðsstefna BÍS mælir með því að gerðir séu sjálfboðaliðasamningur við alla sjálfboðaliða félagsins en nánar er fjallað um þá neðar.
Finna þarf foringja til að sinna starfinu og stjórn félagsins þarf að samanstanda af þremur meðlimum að lágmarki. Þegar stofna skal skátafélag er gott að kanna hugsanlega tengiliði, samstarfsaðila og bakland sem geta stutt við mannauð félagsins með ýmis verkefni.
3.2 Samstarf innan sveitarfélags
Dæmi er um félög sem hafa starfað í nánu samstarfi við félagsmiðstöðvar og björgunarsveitir, frístundaheimili, skóla, nágranna skátafélög, ungliðahreyfingar í nágrenni. Það fer eftir aðstæðum í hverju sveitarfélagi fyrir sig hvað eru hentugir samstarfsaðilar við félagið.
3.3 Samstarf við önnur skátafélög
Það getur reynst vel að komast í gott samband við önnur skátafélög en félögin geta stutt við hvort annað á ýmsa vegu. Þegar langt er á milli félaga er t.d. hægt að reyna að hittast á miðri leið og halda sameiginlega viðburði eins og félagsútilegu. Dæmi eru um vinafélög sem hafa sameinast í tjaldbúðum á stærri viðburðum sem aldursbilamótunum og landsmótum. Þá þarf vinafélag ekki endilega að vera nálægt félag en dæmi eru um að minni félög hafi átt farsælt samstarf við stærra vinafélag af höfuðborgarsvæðinu.
4. SAMSTARF VIÐ SVEITARFÉLAG
Þegar stofna skal nýtt skátafélag er gagnlegt að fá sveitarfélagið með sér í lið. Til sveitarfélagsins má í mörgum tilvikum sækja styrk fyrir stofnun félagsins og upphafi skátastarfsins. Sveitarfélögin eru almennt mjög hlynnt því að auka framboð íþrótta- og æskulýðsstarfs í sveitarfélaginu því það er mikill fengur fyrir þau að hafa gott framboð fyrir börnin sem þau sinna.
Sveitarfélögin eru flest með starfsfólk sem hafa æskulýðs- eða tómstundastarf á sinni könnu sem er gott að setja sig í samband við og óska eftir fundi. Hægt er að óska eftir því að starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar komi með á þann fund.

4.1. Aðstaða og búnaður
Þegar stofna á skátafélag þarf að tryggja að félagið hafi aðstöðu einhversstaðar, hvort sem það er í sér húsnæði eða það fái aðgang að öðru húsnæði. Fyrsta skrefið í þeim málum er að senda fyrirspurn á sveitarfélagið. Hugsanlega er laust húsnæði í bænum sem mætti nota fyrir starfsemina. Þá gæti bærinn haft eignir frá fyrra skátafélagi í sinni vörslu. Þetta getur verið húsnæði, skáli eða búnaður. Mörg skátafélög hafa starfað í samstarfi við félagsmiðstöð, frístundarheimili eða björgunarsveit sveitarfélagsins og fengið afnot að aðstöðu þeirra. Þá má einnig muna að fast húsnæði er ekki nauðsynlegt til að stunda skátastarf, starfið fer jú að miklu leiti fram utandyra. Sama hvar starfið fer fram þarf að hafa aðgang að einhverju svæði til að geta geymt og varðveitt búnaðinn sem nýttur er í starfið.
Ef endurvekja á gamalt félag sem var starfandi í sveitarfélaginu fyrir einhverju síðan má einnig athuga hvort sveitarfélagið hafi einhvern búnað frá félaginu sem því var falið að geyma. Búnaðurinn kann að vera gamall en það þýðir ekki að hann sé ónothæfur. Gjarnan er hann í nógu góðu ástandi til að nýta en ef ekki er hægt að nýta hann sem dagskrárefni á fundum til að sýna nýjum skátum og kynna fyrir þeim sögu skátafélagsins síns.
4.2 Rekstrar- og þjónustusamningar
Sum skátafélög eru með sérstaka rekstrar og/eða þjónustusamninga við sín sveitarfélög og hvetjum við öll félög til að leitast eftir gerð þess háttar samninga.
Áherslur samninganna eru ólíkar eftir skátafélögum og sveitarfélögum en við mælum með því að skoða möguleika þess að eftirfarandi þættir séu í samningnum.
1. Almennt skátastarf, þjónusta við börnin í sveitarfélaginu.
Sum félög fá greiddan styrk miðað við fjölda þáttakendur en önnur fasta upphæð. Þessi upphæð fer beint í skipulagt skátastarfið. (Rekstrarstyrkur)
2. Starfsmannamál, styrkur til að hafa starfsmann sem m.a. tryggir betra flæði upplýsinga milli félags og sveitarstjórnar auk meiri festu í starfseminni. Hjá sumum er þessi styrkur hluti af rekstrarstyrknum.
3. Þjónustuverkefni (viðburðir sem skátafélagið stendur fyrir og opnir eru öllum íbúum s.s. sumardagurinn fyrsti, 17.júní o.fl.). Þessi verkefni eru sumstaðar í sér samningum.
4. Sumarnámskeið og önnur námskeið (þjónusta við börn sem ekki eru endilega í vetrarstarfinu).
Algengt er að sveitarfélög styrki skátafélagið um starfsmenn, einn eða tvo eldri og vinnuskólaliða, til að standa fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn í sveitarfélaginu.
5. Húsnæði og skáli (niðurfelling fasteignagjalda, styrkur til leigu á húsnæði, styrkur til viðhalds og eða nýbygginga)
Þessir styrkir eru mismunandi útfærðir. Í sumum tilfellum er þetta hluti af almenna rekstrarstyrknum og síðan sækja viðkomandi félög sérstaklega um niðurfellingu fasteignagjalda á meðan annars staðar er þetta sérstaklega tiltekið.
6. Sérstakir viðburðir í skátastarfi (landsmót, aldursbilamót, alheimsmót ofl.)
Styrkir vegna sérstakra viðburða eru sjaldnast að finna í þessum samningum enda erfitt að gera grein fyrir umfangi þeirra fyrirfram. Dæmi er þó um að sveitarfélög komi til móts við félög í formi styrktarsjóðs sem notaður er til að styrkja virka einstaklinga og hópa til að sækja sér fræðslu og viðburði, innanlands sem og erlendis.
5. FORMLEG STOFNUN SKÁTAFÉLAGS
5.1 Stofnfundur
Formlegur stofnfundur þarf að eiga sér stað áður en hægt er að sækja um aðild félagsins að Bandalagi íslenskra skáta. Halda skal Skátamiðstöðinni upplýstri um stofnfundinn og reynt verður eftir bestu getu að senda starfsmann ásamt stjórnarmeðlimi BÍS á fundinn.
5.1.1 Lög félagsins
Á stofnfundinum eru lög félagsins skrifuð og samþykkt. Í 9. grein laga BÍS er að finna ákvæði sem skulu vera í lögum hvers skátafélags en lögin þurfa einnig að standast kröfur 5 greinar laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Skátamiðstöðin getur útvegað drög að lögum sem félög getur aðlagað eigin starfi.
5.1.2 Stjórn félagsins og hlutverk
Á stofnfundi skal stjórn félagsins kosin en skv. lögum BÍS þurfa að lágmarki þrír aðilar að vera í stjórn félags. Æskilegt er að a.m.k. einn þeirra sé á aldrinum 18-25 ára. Þeirra á meðal skulu vera félagsforingi og gjaldkeri en sami aðili má ekki gegna báðum embættum.
Í lögum BÍS segir einnig að í skátafélögum skuli starfa félagaþrenna; félagsforingi auk dagskrár- og sjálfboðaliðaforingja. Þessi embætti geta verið innan eða utan stjórnar.
Að stofnfundi loknum skal senda bæði lög félagsins og upplýsingar um nýkjörna aðila í stjórn félagsins til Skátamiðstöðvarinnar. Þær upplýsingar skulu innihalda fullt nafn, kennitölu, netfang og hlutverk í stjórn félagsins.

5.2 Umsókn til stjórnar BÍS
Stjórn BÍS er haldið upplýstri um stöðu mála í gegn um allt ferlið og aðstoða þegar þess er þarft. Þegar stofnfundur hefur farið fram, lög félagsins samþykkt og stjórn mynduð, tekur stjórn BÍS umsókn félagsins um aðild að BÍS fyrir.
Góð undirbúningsvinna og virkt samtal milli félags og BÍS tryggir að þessi afgreiðsla gangi smurt fyrir sig. Ef svo ólíklega vill til að lög félags eða annað stendur á mis við grunngildi, lög og reglugerðir BÍS er félaginu veittur frestur til að laga það. Félaginu er veitt tímabundið leyfi til að starfa en innganga félagsins er formlega staðfest á Skátaþingi og öðlast hún gildi í lok þings.
Úr 7. grein laga BÍS:
Stjórn BÍS skal aðstoða og leiðbeina þeim sem stofna vilja nýtt skátafélag, eða endurvekja gamalt, svo sem kostur er.
Stofnun skátafélags, nafn þess, lög og merki, er háð samþykki stjórnar BÍS, enda séu lög hins nýja félags í samræmi við Grunngildi, lög og reglugerðir BÍS og æskulýðslögum sem og önnur landslög sem snerta starfsemi skáta.
Innganga skátafélags í BÍS skal formlega staðfest á Skátaþingi og öðlast hún gildi í lok þess þings.
5.3 Sótt um kennitölu hjá Skattinum
Þegar félagið hefur verið formlega stofnað þarf að sækja um kennitölu hjá Skattinum. Er það nauðsynlegt svo að félagið geti staðið skil á öllum formlegheitum sem nauðsynleg eru fyrir félagasamtök.
Umsóknir um skráningu félagasamtaka eru teknar fyrir vikulega. Hægt er að senda skannað afrit af stofngögnum á netfangið fyrirtaekjaskra@skatturinn.is
Ekki er nauðsynlegt að skila inn frumritum af gögnum.
Gögn sem þarf að skila til skattsins:,
- Umsóknareyðublað
- Tilkynning um raunverulega eigendur
- Lög/samþykktir félags
5.4 Stofnun bankareiknings
Ákveða þarf við hvaða banka skátafélagið vill eiga í viðskiptum við. Þegar kennitala hefur fengist frá skattinum getur félagið hafið samtal við bankann um stofnun bankareiknings.

6. FYRIRKOMULAG STARFS
Skátastarf er allskonar, og þarf ekki að vera bundið við einn fund á viku. Það hefur hentað sumum félögum úti á landi betur að halda færri en lengri fundi yfir starfsárið, hvort sem er fyrir allt félagið saman eða skipt eftir aldursbilum. Þá er einnig dæmi um dróttskátasveit sem starfar nær eingöngu um helgar en sveitin fer í útilegur aðra hvora helgi, í einna og tveggja nótta róteringu.
6.1 Starfað eftir skátaaðferðinni
Það eru ákveðnir þættir sem starfið þarf að uppfylla til að geta starfað undir merkjum BÍS, og hægt sé að kalla það skátastarf. Félögin þurfa að starfa eftir grunngildum og lögum BÍS sem og skátaaðferðinni. Þá þurfa verkefni sem skátaflokkurinn og skátasveitin takast á við að vera ævintýranleg, skemmtileg, krefjandi og aðgengileg (ÆSKA) fyrir hvern þann skáta sem tekur þátt. Að auki er lögð áhersla á að verkefnin innihalda stig undirbúnings (PLANA), framkvæmdar (GERA) og endurmats (META) og er það hlutverk skátaforingja að styðja við skátana á hverju stigi út frá þeirra forsendum.
Skátaaðferðin byggir á átta þáttum sem allir haldast í hendur og vinna sem ein heild að því að ramma inn skátastarfið. Þessir þættir eru reynslunám, táknræn umgjörð, náttúran, samfélagsþáttaka, framfarir einstaklings, stuðningur fullorðinna og flokkakerfið. Hægt er að lesa meira um starfsgrunninn, markmiðaflokkana, skátaaðferðina og dagskrárhringinn í útgefinni bók BÍS „Hvað er skátastarf?“.
Hægt er að nálgast eintak af bókinni hjá Skátamiðstöðinni en hún er einnig aðgengileg rafrænt hér.
6.2 Aldursbil í upphafi starfs
Þegar starf er hafið í nýju félagi er oft gott að byrja á einu aldursbili. Ekki er hægt að fullyrða hvaða aldursbil er best að byrja starfið á en mismunandi kostir fylgja mismunandi aldursbilum:
Ef mikil vöntun er á foringjum og baklandi getur t.d. reynst vel að byrja með fjölskylduskáta en þar er fókusinn á að fjölskyldan stundar skátastarf saman. Foreldrar, forráðamenn eða aðrir fjölskyldumeðlimir mæta með barninu á fundi, sem oft eru haldnir um helgar.
Kostur við hrefnuskátastarf er að það er yfirleitt keyrt innan frístundar eftir skóla og er skátaforinginn því launaður starfsmaður skólans.
Fálkaskátar eru einnig skemmtilegur aldur að byrja með. Skátarnir eru enn þá mjög jákvæðir fyrir leikjum, söngvum og ævintýrinu. Aldurinn er góður til að leggja grunn að uppbyggingu félagsins, en innan fárra ára gætu þessir sömu fálkaskátar verið tilbúnir að taka sín fyrstu skref í foringjastörfum.
Dróttskátar eru svo sjálfstæðari, og líklegir til að geta hjálpaði í félaginu en sama gildir um rekka- og róverskáta.
7. STYRKIR
Í kaflanum Samstarf við sveitarfélag er fjallað um mögulegar styrkveitingar sveitarfélaga við upphaf skátastarfsins en í sama kafla er einnig fjallað um rekstrar og þjónustusamninga við sveitarfélögin.
7.1 Styrktarsjóður skáta
Styrktarsjóður skáta veitir einstaklingum og skátahópum fjárstyrki fyrir ýmsum ólíkum verkefnum skátahreyfingunni til heilla. Hægt er að sækja um styrk við stofnun skátafélags en er sá styrkur ætlaður til að koma fóti undir félagið, í fræðslu og dagskrá vetrarins. Hægt er að lesa nánar um styrktarsjóð skáta á https://skatarnir.is/styrktarsjodur/ en hafa þarf samband við skátamiðstöðina fyrir nánari upplýsingar um styrki til nýrra félaga.
8. STARFIÐ UNDIRBÚIÐ
8.1 Þjálfun sjálfboðaliða og starfsfólks
Mikilvægt er að sjálfboðaliðar sem sinna hlutverkum fyrir félagið séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Ein leið til að koma því á framfæri er að senda sjálfboðaliða á námskeið en BÍS heldur margvísleg námskeið fyrir sjálfboðaliða.
Æskilegt er að foringjar félagsins sæki foringjanámskeið á vegum BÍS áður en starf hefst eða í upphafi þess. Foringjanámskeiðið er haldið árlega, fyrstu helgina í september.
Jafnframt er æskilegt að öll sem sinna foringjastörfum innan félagsins séu með gilt skyndihjálparskírteini eftir 12 tíma námskeið. BÍS heldur reglulega skyndihjálparnámskeið fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk en einnig er hægt að sækja námskeið beint hjá Rauða Krossinum.
Nánari upplýsingar um námskeið sem standa sjálfboðaliðum skátanna til boða má skoða á upplýsingasíðu Skátaskólans.
BÍS er aðili að Æskulýðsvettvangnum en það er samráðsvettvangur Skátanna, Landsbjargar, KFUM & KFUK og UMFÍ.
Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir námskeiðum, ráðstefnum og öðrum sameiginlegum verkefnum sem lúta að hagsmunum barna og ungmenna. Þar ber helst að nefna Verndum þau námskeiðið sem fjallar um vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum og hvernig skal bregðast við því. Námskeiðið er skylda fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins.
Æskulýðsvettvangurinn býður upp á fjölda annara námskeiða sem standa öllum til boða, þátttakendum að kostnaðarlausu. Vettvangurinn sendir út námskeiðaáætlun fyrir hvert starfsár sem má skoða á heimasíðunni þeirra.
8.2 Sjálfboðaliðasamkomulög
Áður en starf hefst skal sjáfboðaliðaforingi skátafélagsins gera samkomulag við alla foringja og stjórnarmeðlimi félagsins. Tilgangur samkomulagsins er að stuðla að skýrara starfsumhverfi, og hafa skriflegar gagnkvæmar skyldur og væntingar. Þar koma fram þættir eins og hlutverk, verkefni og markmið hvers sjálfboðaliða. Stjórnir og skátaforingjar eru hvött til að eiga samtal við gerð þessara samkomulaga. Þá gefst öllum aðilum tækifæri til að segja frá helstu áskorunum og tækifærum í starfinu, óska eftir viðeigandi stuðning og aðstoð, setja fram skilyrði um mætingar í vissar ferðir, útilegur, fundi og fleira.
Skátafélög eru hvött til þess að nýta sniðmáta Skátamiðstöðvarinnar að sjálfboðaliðasamkomulagi við skátaforingja. Þannig er tryggt að öll innan félagsins gangi að sömu skilgreiningu um hvað foringjastarfið feli í sér. Hvert skátafélag getur þróað áfram sína útgáfu af samninginum samkvæmt ríkjandi hefðum.
8.3 Sakaskrárheimild og sæmdarheit sjálfboðaliða
Samkvæmt 10. grein æskulýðslaga nr. 70/2007 ber öllum starfandi skátum innan skátafélagsins, 18 ára og eldri, að skila inn sakaskrárheimild til BÍS. Sakaskrárheimildin er aðgengilegt á heimasíðu skátanna og er mælt með því að skátafélagið geymi samansafn heimildanna á vísum stað innan skátaheimilsins, og sendi afrit til Skátamiðstöðvar þegar kallað er eftir því. Skátamiðstöðin geymir ekki afrit af sakaskrárheimildum félaganna hjá sér. Þá þurfa einnig allir sjálfboðaliðar að skrifa undir sæmdarheit sjálfboðaliða.
8.4 Æskulýðsvettvandurinn og samskiptaráðgjafi
Skátarnir eru aðildarfélag Æskulýðsvettvangsins og eiga gildandi reglur og áætlanir vettvangsins um allt skátastarf skv. 2. Grein laga BÍS. Felur það í sér að sjálfboðaliðar eigi að sækja verndum þau námskeið Æskulýðsvettvangsins og æskilegt er að sækja það á fjögurra ára fresti. Að auki ber sjálfboðaliðum að þekkja og starfa eftir siðareglum og gildandi viðbragðsáætlun. Þá er fjöldi námskeiða haldin ár hvert hjá Æskulýðsvettvangnum og standa þau öllum til boða án kostnaðar.
Frá árinu 2020 hefur samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsmála verið starfandi og er hægt að leita til þeirra ef þörf er á stuðningi við úrvinnslu margvíslegra mála. Gildandi viðbragðsáætlun er unnin á þeirra vettvangi og er því um að ræða sameiginlega áætlun fyrir allt íþrótta- og æskulýðsstarf á landinu.

8.5 Félagsgjöld skátafélagsins
Skátafélög setja sitt félagsgjald á starfið sem það býður upp á og gæta þess að skýrt sé hvað sé innifalið í gjaldinu og hvað ekki. Mismunandi er milli félaga hvort gjaldið innihaldi aðeins hefðbundna skátafundi eða hvort einkenni og viðburðir félagsins, t.d. félagsútilegur séu innifaldir eða ekki.
Skátamiðstöðin hefur sett upp félagsgjaldamódel sem er ætlað að aðstoða skátafélög að reikna út sitt félagsgjald. Það getur einnig nýst til að áætla hvernig gjaldið verður nýtt í fyrirséða kostnaðarliði starfsins. Gott getur einnig verið að kynna sér verðlagningu á öðru íþrótta- og æskulýðsstarfi í sveitarfélaginu.
Skátafélög eru beðin um að koma upplýsingum um félagsgjald til Skátamiðstöðvar svo hægt sé að setja þær inn á heimasíðu skátanna og svara fyrirspurnum sem kunna að berast.
8.6 Starfsáætlun
Starfsáætlun er mikilvægt tól til þess að setja sér stefnu fyrir næsta ár. Þannig geta stjórn, foringjar, forráðafólk og skátar í félaginu gengið að sömu upplýsingum um hvað skuli gert næsta árið. Áður en vetrarstarfið fer í gang er gott að setjast niður með foringjahópnum og ákveða hvaða viðburði og fræðslur félagið hyggst sækja á komandi ári. Á heimasíðu BÍS má finna viðburðadagatal fyrir komandi starfsár. Þá er einnig gott að nýta tækifærið til að ákveða dagsetningar viðburða innan félagsins á komandi vetri og tryggja að það skarist ekki á við dagsetningar á viðburðum BÍS.
8.7 Skráningakerfi Abler
Flest skátafélög halda utan um skráningar sínar í Abler en Abler er öruggt skráningarkerfi notað þvert á íþrótta og tómstundastarf í landinu. Þegar nýtt skátafélag er stofnað þarf erindreki BÍS að byrja á því að stofna félagið í Abler. Þegar því er lokið getur skátafélagið opnað fyrir skráningu í félagið. Í Abler er ekki aðeins haldið utan um persónuupplýsingar og tengiliði þáttakenda heldur virkar Abler sem einskonar dagatal félagsins, þar sem m.a. settar eru inn æfingar (fundi) og viðburði (útilegur og annað), félagsgjöld innheimt, og haldið er utan um skráningar á viðburði.
Á Abler er einnig hægt að eiga í samskiptum við skáta og forsjáraðila þeirra. Abler er viðurkennd samskiptaleið innan Skátanna og hvetur Skátamiðstöðin til þess að leitast sé eftir því að öll samskipti við skátana fari fram á þeim miðli. Er það gert til þess að tryggja öryggi í samskiptum og að samskipti séu í samræmi við siðareglur. Varast skal að eiga samskipti við skáta undir lögaldri á samfélagsmiðlum án upplýsts samþykkis forsjáraðila og skal aldrei hafa samskipti við þau á samfélagsmiðlum þar sem skilaboð hverfa eftir ákveðinn tíma.
Skátamiðstöðin hefur útbúið notkunarleiðbeiningar fyrir skátafélögin en þau eru að finna undir kaflanum skráningarmál á https://skatarnir.is/hefjum-storf/ . Skátamiðstöðin veitir einnig aðstoð við einstaka mál sem koma að skráningarkerfi.