Aðalfararstjórar (HoC) á Alheimsmót skáta 2027

Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing. Markmið hennar er að leggja sem mest af mörkum við uppeldi ungs fólks til þess að skapa betri heim þar sem fólk öðlast lífsfyllingu sem sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.

Alheimsmót skáta (e. World Scout Jamboree) er skátamót fyrir ungt fólk alls staðar að úr heiminum á aldrinum 14-18 ára haldið af WOSM (e. World Organisation of the Scout Movement). Árið 2027 verður 26. Alheimsmótið haldið í Gdansk í Póllandi og leitar stjórn Bandalags íslenskra skáta að aðalfararstjórum (e. Head of Contingent, HoC) á mótið. Leitað er að tveimur aðalfararstjórum til að skipta verkefninu á milli sín en það er stórt, viðamikið og því fylgir mikil ábyrgð.

Markmið fararstjóra íslenskra skáta á Alheimsmót skáta 2027 er að vinna að tilgangi og markmiðum hreyfingarinnar með því að halda utan um ferð íslenskra skáta á mótið í Póllandi, ásamt því að stuðla að velferð og vegsemd íslenskra skáta.

UM MÓTIÐ

Mótið verður haldið 30. júlí – 8. ágúst 2027 í Gdansk í Póllandi. Á Alheimsmóti koma saman skátar alls staðar að úr heiminum og eiga ævintýranlegan tíma saman, eignast nýja vini, takast á við áskoranir og kynnast náttúru landsins. Að taka þátt í Alheimsmóti er ógleymanleg reynsla sem fylgir skátum út lífið.

Frekari upplýsingar er hægt að finna á vefsíðu mótsins.

Bandalag íslenskra skáta hefur verið með stóra hópa skáta á undanförnum Alheimsmótum og vonum við að svo verði einnig á mótinu 2027.

Annað sem vert er að vita:

  • Skátar fæddir á bilinu 30. júli 2009 til 30. júlí 2013 geta sótt um að vera þátttakendur.   
  • Skátar fæddir 29. júli 2009 eða fyrr geta sótt um að vera starfsmenn eða foringjar. 
  • Skátar sem fara á mótið þurfa að hafa virka félagsaðild að BÍS.

HLUTVERK AÐALFARARSTJÓRA

Aðalfararstjórar BÍS á Alheimsmót skáta 2027 eru sjálfboðaliðar sem vinna með stuðningi Skátamiðstöðvarinnar að undirbúningi, framkvæmd, frágangi og endurmati ferðar íslenskra skáta á mótið. Aðalfararstjórar eru verkstjórar fararstjórnar og sjá um að útdeila verkefnum og ber ábyrgð á að öllum verkefnum fararstjórnar sé sinnt.

Aðalfararstjórar sitja í stýri- og ráðgjafahópi íslenska fararhópsins með skátahöfðingja, aðstoðar skátahöfðingja, framkvæmdastjóra BÍS, alþjóðafulltrúa BÍS og fjármálastjóra BÍS. Tengiliður BÍS við WOSM er alþjóðafulltrúi.

  • Starfstímabil aðalfararstjóra er mars 2025 til október 2027.
  • Fararstjórn Alheimsmóts skáta heyrir undir alþjóðafulltrúa BÍS.
  • Stýri- og ráðgjafahópur íslenska fararhópsins skipa fararstjórn (e. contingent management team, CMT) en stærð hennar ræðst af fjölda þátttakenda ferðarinnar. 
  • Aðalfararstjórar þurfa að hafa náð a.m.k. 20 ára aldri.

HELSTU VERKEFNI OG ÁBYRGÐ FARARSTJÓRNAR

Fararstjórar eru endanlega ábyrg fyrir öllum störfum fararhópsins og skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öllum góða upplifun og góðan stuðning á meðan ferð stendur. Fararstjórn vinnur ýmist með þátttakendum, sveitarforingjum, þjónustuliðum, forráðafólki og starfsfólki Skátamiðstöðvar.

Aðalfararstjórar þurfa meðal annars að:

  • Tryggja öryggi og velferð allra í fararhópnum
  • Tryggja að öll nauðsynleg gögn séu til staðar og verkefnaskipting sé eðlileg
  • Bera ábyrgð á kynningu mótsins til skátafélaga og skáta
  • Tryggja góða miðlun upplýsinga til allra viðeigandi aðila í undirbúningi sem og framkvæmd ferðarinnar
  • Bera ábyrgð á skipulagi, framkvæmd og endurmati á öllu ferðalagi hópsins
  • Tryggja að fararhópurinn sé vel undirbúinn
  • Annast miðstöð fararhópsins í tjaldbúð mótsins
  • Skila skýrslu til Skátamiðstöðvar eigi síðar en 2 mánuðum eftir heimkomu
  • Tryggja að gengið sé frá öllum búnaði

Ítarlegri útlistun á hlutverkum aðalfararstjóra má nálgast hér.

MIKILVÆG REYNSLA OG FÆRNI AÐALFARARSTJÓRA

STERKUR LEIÐTOGI

  • Reynsla af forystustarfi
  • Reynsla af fararstjórn, mótsstjórn eða annarri sambærilegri reynslu
  • Víðtæk reynsla í verkefnastjórnun, innan skátastarfs eða utan
  • Færni í að hvetja og leiða ungt fólk
  • Vinna vel í hópi og styðja teymisvinnu
  • Geta tekið ábendingum og leiðbeiningum annarra
  • Jákvætt lífsviðhorf og vilji til verka
  • Sjálfstæð og lausnamiðuð hugsun

GÓÐ SAMSKIPTAFÆRNI

  • Færni í að leiða og styðja hóp sjálfboðaliða 18 ára og eldri til góðra verka
  • Færni í samskiptum, bæði í ræðu og riti
  • Færni í notkun nútíma samskiptatækni
  • Mjög góð færni í samvinnu með öðrum

FJÖLÞJÓÐLEG REYNSLA

  • Skilningur á fjölþjóðlegum þætti Alheimsmóts skáta, þar sem mismunandi menningarhópar koma saman. Vera opin gagnvart öðrum og geta sýnt nærgætni, óháð m.a. þjóðerni, trú, kyni, kynhneigð og kyntjáningu.
  • Reynsla af stærri fjölþjóðlegum skátaviðburðum
  • Hafa farið á Alheimsmót skáta
  • Góð kunnátta í ensku, kunnátta í pólsku er kostur
  • Hafa til þess burði að vera í tvær vikur í tjaldútilegu og taka þátt í tjaldbúðar lífi

Að auki þurfa fararstjórar að hafa sótt Verndum þau námskeið á tímabilinu 2023-2025 en annars er nauðsynlegt að það sé sótt áður en farið er út. Jafnframt skulu þau skila inn sakaskrárheimild til BÍS ásamt því að þekkja og starfa eftr siðareglum ÆV og kynna sér og starfa eftir reglugerð BÍS um utanferðir skáta

STUÐNINGSEFNI TIL AÐ VINNA VERKEFNIÐ

AF HVERJU AÐ VERÐA FARARSTJÓRI?

Hlutverk fararstjóra í ferð sem þessa er margþætt og þar koma allskonar hæfileikar að góðum notum. Þetta er einnig vettvangur til þess að rækta þá hæfileika og læra nýja hluti, hvort sem er með hjálp annara í fararstjórnarteyminu eða þátttakendanna. Á meðan verkefninu stendur gefast tækifæri á því að kynnast nýju fólki, hitta gamla vini, kynnast nýrri menningu, læra af hvort öðru og skapa ógleymanlegar minningar.

Fararstjórahlutverkið á að vera skemmtilegt og krefjandi, eins og allt skátastarf er.

UMSÓKN

Mjög góð ensku kunnátta á við um þau sem tala, lesa og skrifa ensku reiprennandi
Vinsamlegast takið aðeins fram þau tungumál sem þú treystir þér að eiga í samskiptum við erlenda skátahópa á.
Vinsamlegast skrifaðu starfsheiti eða stutta lýsingu á því sem þú fæst við.
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á verkefninu. Hvernig reynsla þín nýtist farhóp Íslands á mótið og hvers vegna þú ættir að verða fyrir valinu.